Sumir myndu segja að kartöflur væru fátæklegur matur og brokkolí og blómkál það sem börnin sussa og sveia við að setja inn fyrir sínar varir.
Í dag finnst mér þetta hráefni einmitt vera það besta! Við kjósum allan daginn að nota íslenska grænmetið vegna einstakra bragðeiginleika þess.
Síðastliðin sumur hef ég hlakkað með eindæmum mikið til þess að íslenska grænmetið komi í búðirnar og oft á tíðum er ég löngu búinn að hanna rétti og uppskriftir í kringum hráefnið því eftirvæntingin getur oft verið mikil og hjá mér jafnvel meiri heldur en hjá barni sem bíður eftir að fá að opna jólagjafirnar.
Hér eru nokkrar einfaldar tillögur sem ég mæli með að fólk prófi sig áfram þegar kemur að því að elda grænmetið:
“Rauðar íslenskar” kartöflur finnst mér bestar soðnar í léttsöltu vatni og svo kramdar með klípu af smjöri og saxaðri skessujurt (sem sniðugt er að stela úr garðinum hjá nágrannanum).
Gullauga kartöflurnar er gott að sjóða fyrst í söltu vatni og baka svo í 200°c ofni, og bera fram með steinselju og hvítlauk.
Blómkálið finnst mér best steikt í freyðandi smjöri á pönnu með dassi af sítrónubörk og safa.
Spergilkálið er í sérlegu uppáhaldi og kýs ég að “blansera” hæfileg stóra toppa í léttsöltu vatni í u.þ.b. 2 mín og krydda til með limesafa og ólífuolíu.
#Brokkolí #Blómkál #Rauðar Íslenskar #Gullauga
– Bjarni Siguróli